50 milljónir í ljósleiðara

Ætlað er að rekstur Ásahrepps verði jákvæður um rúmar 32 milljónir króna á næsta ári að meðtöldum fjármagnsliðum. Þetta kemur fram í fjárhagsáætlun hreppsins sem samþykkt var á síðasta hreppsnefndarfundi.

Þar kemur fram að tekjur séu ætlaðar 179,5 milljónir en gjöld tæpar 145 milljónir. Ætlað er að rekstrarafgangur verði einnig af rekstrinum á þessu ári en að sögn Eydísar Indriðadóttur, oddvita Ásahrepps er sá afgangur að hluta notaður til að greiða niður skuldir.

Samkvæmt áætluninni fyrir næsta ár er fyrirhugað að leggja 57,1 milljón króna í fjárfestingar, þar af 50 milljónir króna í lagningu ljósleiðara í sveitarfélaginu. Eydís segir hugmyndina um lagningu slíks leiðara á frumstigi.

„Við höfum ekki gengið frá neinum samningum ennþá, en góð fjarskipti skipta íbúa og fyrirtæki miklu máli, svo sem til endurmenntunar, starfsaðstöðu, ferðaþjónustu og fleira,“ segir Eydís.

Hún segir að þrátt fyrir að búið sé að eyrnamerkja þessa fjármuni til málsins hefði sveitarstjórn viljað sjá aðkomu ríkisins á einhvern hátt að eflingu fjarskipta á landsbyggðinni og nefnir fjarskiptasjóð í þeim efnum.

Fyrri greinDímon sigraði í fyrsta sinn
Næsta greinAlfreð framlengir og ungir leikmenn skrifa undir