50% afsláttur á leikskólagjöld og elsta árið frítt

Sveitarstjórn Ásahrepps samþykkti á fundi sínum í kvöld tillögu vegna fjárhagsáætlunar næsta árs um að stíga stórt skref í átt að gjaldfrjálsum leikskóla.

Lagt er til að frá áramótum veiti sveitarfélagið 50% afslátt af gjaldskrá leikskólans af dagvistargjöldum og að elsti árgangurinn verði gjaldfrjáls að fullu. Nú þegar greiðir sveitarfélagið að fullu fyrir máltíðir barna í grunn- og leikskólum.

Í bókun sveitarstjórnar segir að þetta sé mikið hagsmunamál barnafjölskyldna og kemur hreppurinn nú verulega á móts við kostnað vegna leikskólagöngu barna og jafnar aðstöðu foreldra til að senda börn sín í leikskóla, óháð efnahag.

„Auk þess er það mat hreppsnefndar að það sé réttur barna að eiga þess kost að ganga í leikskóla, sérstaklega síðasta árið, enda lítur hreppsnefnd svo á að það sé í raun fyrsta skólaárið í grunnskólagöngu hvers barns. Með upptöku tómstundastyrkja og þeirrar lækkunar á leikskólagjöldum sem lögð er til er verið að verja sömu upphæð til barnafjölskyldna og ef leikskólagjöld yrðu felld niður að fullu,“ segir ennfremur í bókuninni.

Frekari skref verða stigin á næstu árum í átt að gjaldfrjálsum leikskóla, en vegna stórra framkvæmda hreppsins á stuttum tíma, á borð við ljósleiðaralögn og viðbyggingu Lundar, segir sveitarstjórn skynsamlegt að ná því markmiði í skrefum og meta reynsluna af hverjum teknum áfanga.“

Fyrri greinSelfoss áfram í bikarnum
Næsta greinSkólapiltar vilja plastpokalaust Suðurland