44% íbúa Mýrdalshrepps eru erlendir ríkisborgarar

Í Vík í Mýrdal. sunnlenska.is/Sigurður Hjálmarsson

Hæsta hlutfall erlendra ríkisborgara á landinu er í Mýrdalshreppi. Alls voru  44% íbúa hreppsins með erlent ríkisfang þann 1. desember síðastliðinn.

Þá voru 319 erlendir ríkisborgarar skráðir með búsetu í Mýrdalshreppi af 717 íbúum hreppsins. Næst hæsta hlutfall erlendra ríkisborgara er í Skaftárhreppi með 33%.

Þann 1. desember síðastliðinn voru íbúar V-Skaftafellssýslu 1.343 talsins og þar af voru 524 með erlent ríkisfang, eða 39%.

Bláskógabyggð er í 3. sæti yfir landið með 28% og hlutfallið er litlu lægra í Ásahreppi, 27% og 24% í Hrunamannahreppi.

Hlutfall erlendra ríkisborgara er afar breytilegt milli sveitarfélaga á landinu eða frá rúmum 44% niður í 1%  þó að jafnaði sé hlutfallið um 14% þegar horft er til allra sveitarfélaga.

Lægsta hlutfallið á Suðurlandi er í Hveragerði, 6% og í Árborg eru 747 íbúar með erlent ríkisfang, eða 7% íbúa sveitarfélagsins og 8% í Flóahreppi.

Þegar horft er til landshluta í heild sinni þá eru 14% Sunnlendinga með erlent ríkisfang og er Suðurland í 3. sæti á eftir Suðurnesjum með 24% og Vestfjörðum með 16%.

Þetta kemur fram í upplýsingum sem Þjóðskrá Íslands tók saman og birti í dag.

Fyrri greinMýrmann opnar í Gallerí Fold
Næsta greinAuglýst eftir presti á Selfossi