40,2% íbúa Mýrdalshrepps eru erlendir ríkisborgarar

Vík í Mýrdal. sunnlenska.is/Dýrleif Nanna Guðmundsdóttir

Í Mýrdalshreppi búa 280 erlendir ríkisborgarar og eru þeir 40,2% af íbúafjölda hreppsins. Lægsta hlutfallið á Suðurlandi er í Hveragerðisbæ.

Þjóðskrá Íslands hefur tekið saman fjölda erlendra ríkisborgara sem eru búsettir hér á landi eftir sveitarfélögum. Tölurnar miðast við 1. desember síðastliðinn.

Hlutfall erlendra ríkisborgara er langhæst á landsvísu í Mýrdalshreppi þar sem búa 697 manns og 280 þeirra eru með erlent ríkisfang.

Næst hæsta hlutfall erlendra ríkisborgara á landinu er í Skaftárhreppi eða 28,3% og Bláskógabyggð er í 3. sæti yfir langið með 25,7%.

Lægsta hlutfallið á Suðurlandi er í Hveragerði þar sem 142 af 2.624 íbúum bæjarins eru erlendir ríkisborgarar, eða 5,4%. Hlutfallið er 6,6% í Árborg og Flóahreppi. Í Árborg búa 620 erlendir ríkisborgarar af 9.454 íbúum sveitarfélagsins og í Flóahreppi eru 44 af 665 íbúum erlendir ríkisborgarar.

Í öðrum sveitarfélögum á Suðurlandi er hlutfallið svipað, 15-23%.

Alls búa 3.033 erlendir ríksisborgarar á Suðurlandi en íbúar á svæðinu voru 23.011 þann 1. desember síðastliðinn.

Fyrri grein165 héraðsmet sett á síðasta ári
Næsta greinKarabatic ánægður með Teit