40% starfsmanna leikskólakennarar

Sveitarfélagið Árborg hefur unnið að því að efla faglega umgjörð við leik- og grunnskóla með nýrri skólastefnu, stjórnendanámi og endurskoðun á skólaþjónustu, sem hefur m.a. stuðlað að eflingu á þróunarstarfi í leikskólum og virkað sem hvati til menntunar hjá starfsmönnum.

„Já, þróunarstarf leikskólanna og aðrar aðgerðir hafa skilað sér í auknum faglegum áhuga og frekari menntun starfsmanna á undanförnum misserum. Um 40% starfsmanna leikskóla í Árborg eru leikskólakennarar. Um 12 % eru með uppeldismenntun og/eða annað háskólapróf sem nýtist í starfi. Um 4,5% starfsmanna eru í leikskólakennaranámi, tæplega 7% í framhaldsnámi og um 14% í öðru námi sem nýtist í starfi svo sem leikskólaliða,“ segir Þorsteinn Hjartarson, fræðslustjóri þegar hann var spurður hvort þessi vinna væri að skila sér til sveitarfélagsins.

Hann segir þetta hlutfall afar gott miðað við stöðuna í mörgum öðrum sveitarfélögum en að sjálfsögðu stefni sveitarfélagið enn hærra.

„Í leikskólum sveitarfélagsins hefur starfsfólk verð hvatt til framhaldsnáms og hefur það haldið launum á meðan skólasókn stendur, líka á prófdögum,“ segir Þorsteinn og bætir því við að í mörgum leikskólum sveitarfélagsins er lögð áhersla á að faglærðir starfsmenn miðli þekkingu til ófaglærðra og leiðbeini þeim.

„Fagleg umræða hefur verið mikil í kringum ýmis verkefni sem hefur stuðlað að auknum áhuga á frekara námi.“

Fyrri grein4G samband í Úthlíð
Næsta greinAlexa verður andstæðingur Dagnýjar