40 milljónir til að styrkja gróður

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun að veita 40 milljónum til styrkingar gróðurs á þeim svæðum þar sem mikið öskufall varð í eldgosinu í Grímsvötnum í vor.

Markmiðið með verkefninu er að hefta öskufok á þessum svæðum á næstu misserum.

Umhverfisráðuneytið segir, að þrátt fyrir að veður og vindar hafi verið hagstæðir og feykt töluverðri ösku á haf út í kjölfar gossins sé enn töluverð aska á öskufallssvæðunum sem sest hefur til á jörðinni eftir rigningar. Gera megi ráð fyrir því að þessi aska fjúki upp þegar þornar og hvessir.

Reynslan frá gosinu í Eyjafjallajökli sýni að draga megi verulega úr öskufokshættu með styrkingu gróðurs í byggð. Þetta sé ekki síst brýnt í Fljótshverfi austan við Kirkjubæjarklaustur þar sem mesta askan féll, en íbúar þar megibúast við reglulegu öskufoki næstu mánuði og misseri verði ekkert að gert. Sömuleiðis skapi öskufokið slysahættu á hringveginum á þessu svæði.

Því hafi Landgræðslan lagt til að gripið verði strax til aðgerða til að draga úr öskufokinu sem fælust í sáningu, áburðargjöf og annars konar gróðurstyrkingu.

Til viðbótar við 40 milljóna króna fjárveitingu ríkisstjórnarinnar áætlar Landgræðslan að verja 7,5 milljónum króna til viðbótar til verkefnisins með nýrri forgangsröðun verkefna hjá stofnuninni.