40 ára afmælisveisla hjá Ingunni

Ljósmynd/Björgunarsveitin Ingunn

Björgunarsveitin Ingunn fagnar 40 ára afmæli sveitarinnar laugardaginn 6. maí næstkomandi en sveitin var stofnuð á Laugarvatni þann 15. apríl 1981 af sautján staðarmönnum.

Klúbbfélagar í Lionsklúbbi Laugdæla töldu að öryggismálum við vatnið væri áfátt og að það vantaði björgunarbát og úr umræðum um umsjón bátsins spratt björgunarsveitin. Hún skyldi skipuð þjálfuðum mönnum, ávallt til taks, á nóttu sem degi ef eitthvað bregður út af. Hefur hún verið við sjálfboðaliðastörf síðan.

„Í miðjum heimfaraldri varð björgunarsveitin 40 ára gömul og nú – tveimur árum síðar – ætlum við loksins að halda upp á stórafmæli hennar. Hún á það sannarlega skilið,“ sagði Magnús Bjarki Snæbjörnsson, ritari Ingunnar, í samtali við sunnlenska.is.

Í afmælinu verður litið yfir liðinn tíma og hvernig aðstæður og áskoranir björgunarsveitarinnar hafa breyst – og tækjabúnaðurinn eftir því.

„Þörfin fyrir öfluga, skipulagða og þjálfaða björgunarsveit hefur aldrei verið meiri. Það er enginn skortur á fólki á ferð um Laugardal og Þingvallasveit, sem kann að þurfa á aðstoð okkar að halda,“ bætir Magnús við en Ingunnafélagar bjóða gestum að kíkja í húsnæði björgunarsveitarinnar að Lindarskógi 7 á Laugarvatni laugardaginn 6. maí kl. 13:00 til 16:00.

Í boðinu verða léttar veitingar, tækjasýning og ræðuhöld og allir velkomnir!

Hér fyrir neðan eru nokkrar myndir úr starfi Ingunnar.

Ljósmynd/Björgunarsveitin Ingunn
Ljósmynd/Björginarsveitin Ingunn
Ljósmynd/Björgunarsveitin Ingunn
Ljósmynd/Björgunarsveitin Ingunn
Ljósmynd/Björgunarsveitin Ingunn
Ljósmynd/Björgunarsveitin Ingunn
Ljósmynd/Björgunarsveitin Ingunn
Fyrri greinKröftug hrina í Kötluöskjunni
Næsta greinLýsa yfir óvissustigi vegna jarðskjálftanna