40 þúsund manns koma að Urriðafossi á ári

Flóahreppur fékk fyrr í sumar 7,1 milljón króna styrk til uppbyggingar á aðstöðu fyrir ferðamenn við Urriðafoss. Nú er unnið að lagningu göngustígs við fossinn.

Það var Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið sem úthlutaði styrknum að frumkvæði Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða.

Heimir Ólafsson vinnur nú að lagningu göngustígs við fossinn og búið er að gera varúðarskilti sem sett verður upp í sumar. Á döfinni er síðan að stækka bílaplanið, girða svæðið af, gera gott upplýsingaskilti og setja upp borð og bekki fyrir ferðamenn.

Í pistli sveitarstjóra í nýjasta tölublaði Áveitunnar segir að styrkurinn hafi verið kærkominn og komi til með að nýtast vel til afar brýnna framkvæmda við að forða staðnum frá frekari skemmdum en þangað eru að koma um 40.000 manns á hverju ári.

Fyrri greinKristinn Íslandsmeistari í 800 m hlaupi
Næsta greinPílagrímaganga úr Hreppum á Skálholtshátíð