38 tonn af stáli í minkabú í Holti

„Það gengur mjög vel, hér er fullt af smiðum og iðnaðarmönnum að vinna við að koma húsinu upp enda ætlum við að taka það í notkun um mánaðarmótin júní/júlí í sumar,“ segir Björn Harðarson, bóndi í Holti í Stokkeyrarhreppi.

Hann er þar að byggja þrjú þúsund fermetra minkahús á jörðinni ásamt tengdasyni sínum, Ólafi Má Ólafssyni. „Það verður pláss fyrir 1.200 læður í húsinu, auk hvolpa og högna, ásamt aðstöðu til að pelsa og þess háttar,“ segir Björn ennfremur. Húsið mun kosta um 140 milljónir króna.

Yfirsmiður er Stefán Helgason frá Vorsabæ en hann rekur fyrirtækið Kríutanga. Vélsmiðja Suðurlands á Selfossi sér um allt stálvirki hússins en í það fara um þrjátíu og átta tonn af stáli.

Um þessar mundir eru 300 læður í fjárhúsunum í Holti en þær verða allar fluttar í nýja húsið. Þar er einnig sjötíu kúa kúabú.