33 lögreglumenn munu starfa við lögregluna á Suðurlandi

Samkvæmt nýju skipuriti fyrir lögregluna á Suðurlandi, sem tekur gildi þann 1. janúar næstkomandi verður Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn á Selfossi, yfirlögregluþjónn nýja embættisins.

Þá verður Sveinn Kristján Rúnarsson, núverandi yfirlögregluþjónn á Hvolsvelli, yfirmaður almennu deildarinnar og áfram yfirlögregluþjónn. Þorgrímur Óli Sigurðsson, sem er aðstoðaryfirlögregluþjónn á Selfossi verður yfirmaður rannsóknardeildar nýju lögreglunnar og áfram aðstoðaryfirlögregluþjónn.

Eins og fram hefur komið verður Kjartan Þorkelsson núverandi lögreglustjóri á Hvolsvelli yfir nýja embættinu sem lögreglustjóri. Þá verða höfuðstöðvar lögreglunnar á Hvolsvelli líkt og segir til um í reglugerð.

Þrjátíu og þrír lögreglumenn munu starfa við lögregluna á Suðurlandi, níu á Hvolsvelli, í Vík og á Kirkjubæjarklaustri en 24 á Selfossi. Héraðslögreglumenn eru fjórir, þ.e.a.s. lögreglumenn sem sinna tímavinnu um helgar eða á álagstímum. Á skrifstofu lögreglustjóra, sem staðsett verður á Hvolsvelli og á skrifstofu ákærusviðs sem staðsett verður á Selfossi verða samtals sex starfsmenn, auk lögreglustjóra.

Fyrri greinHamar fékk skell á útivelli
Næsta greinFrítt í Jóga Nídra í dag