300 þúsund trjáplöntum plantað á Suðurlandi

Í sumar verða gróðursettar um 50 þúsund trjáplöntur á vegum Skógræktar ríkisins á Suðurlandi og um 250 þúsund á vegum Hekluskóga. Mest verður sett niður af birki í ógróið land.

Þetta kemur fram í viðtali við Hrein Óskarsson, skógarvörð á Suðurlandi, á heimasíðu Skógræktarinnar.

Katla Travel styrkir gróðursetningu á birki í Haukadalsheiði. Í Hjálmarsskógum í Þjórsárdal verður sett niður birki og reyniviður, jólatré í Þjórsárdal og Haukadal auk ýmissa gróðursetninga annars staðar, t.d. í Skarfanesi, á Tumastöðum og víðar. Fyrirtækið Iceland travel hefur líka fengið úthlutað reit í Haukadal þar sem ferðafólki á vegum fyrirtækisins gefst kostur á að gróðursetja tré sem hluta af upplifun sinni á Íslandi.

Af öðrum framkvæmdum sumarsins nefnir Hreinn að mikið verði unnið við uppbygging ferðamannastaða í sunnlensku skógunum. Á þeim verkefnalista er stígur og útsýnispallur á Kirkjubæjarklaustri, gönguleið og pallar við Hjálparfoss í Þjórsárdal, lokahönnun og framkvæmdir við áningarstað á Laugarvatni, opnun snyrtiaðstöðu Haukadal í tengslum við gönguleiðir fyrir alla, gönguleiðir á Þórsmörk og færanlegar göngubrýr.

Skógarnir grænir og fallegir
„Þeir eru grænir og fallegir,“ segir Hreinn þegar hann er spurður hvernig sunnlensku skógarnir líti út þessa dagana. Mikill vöxtur hafi verið hvarvetna í rigningartíðinni undanfarið og mikil gróska í gróðri, til dæmis á lítið grónum svæðum á Þjórsárdalssöndum. Eitthvað segir hann að hafi borið á birkikembu í birkiskógunum en í þessari gróðrartíð nái laufskrúðið fljótt að hylja brúnu laufin eftir birkikembuna. Alaskavíðir og aðrar víðitegundir voru töluvert maðkétnar fyrri part sumars en eru óðum að ná sér eftir að lirfurnar tóku að púpa sig. Hins vegar var veturinn erfiður sígrænu trjánum á Suðurlandi. Hreinn segir ekki ljóst nákvæmlega hvaða veðurfyrirbrigði hafi valdið barrskemmdum en hugsanlega hafi þarna verkað saman stormar, salt og frost.

Níu manns vinna hjá embætti skógarvarðarins á Suðurlandi í sumar auk verktaka sem taka að sér afmörkuð verkefni s.s. gróðursetningu, girðingaviðhald o.fl. Þá koma þrettán skógfræðinemar til starfa hjá embættinu í sumar, nokkra mánuði í einu hver þeirra og flestir frá Írlandi. Alls skila þeir um 2,5 ársverkum og munar um minna. Síðast en ekki síst verður að geta um 50 sjálfboðaliða sem dvelja 2-12 vikur hver við ýmis störf á Þórsmörk. Framlag þeirra verður samanlagt nálægt 250 vinnuvikum eða um 5 ársverk.

Fyrri greinBryggjugleði við Herjólfshúsið
Næsta greinSelfoss færist niður töfluna