30 milljón króna verkefnisstyrkur á Laugarvatn

Veglegur þriggja ára verkefnistyrkur samtals að upphæð 30 milljónir króna kom í hlut vísindamanna Íþróttafræðaseturs Háskóla Íslands á Laugarvatni á dögunum þegar Rannsóknasjóður Íslands (Rannís) úthlutaði styrkjum.

Styrkurinn rennur til rannsóknarverkefnisins Heilsuhegðun ungra Íslendinga.

Markmið rannsóknarinnar er að skoða stöðu og langtímabreytingar á heilsufari, hreyfingu, þreki og lifnaðarháttum 15 og 17 ára unglinga (fædd 1999), og meta samband þessara þátta við beinheilsu, námsárangur og svefn. Úrtak rannsóknarinnar samanstendur af þátttakendum úr rannsókninni „Lífsstíll 7-9 ára íslenskra barna“ sem framkvæmd var árið 2006 og 2008 þegar þátttakendur voru 7 og 9 ára. Gögnum verður safnað 2015 og 2017. Þrír doktorsnemar og fimm meistaranemar munu vinna við gagnasöfnun og framkvæmd þessa verkefnis á næstu þremur til fimm árum.

Að sögn Erlings Jóhannssonar, prófessors við íþróttafræðasetur HÍ, er þessi styrkveiting mjög athyglisverð, ekki síst í ljósi þess að þetta er fjórtándi rannsóknarstyrkurinn sem fræðimenn HÍ á Laugarvatni fá frá Rannís á síðustu 10 árum, þar af eru fimm verkefnisstyrkir til þriggja ára. Afar fáir rannsóknahópar á sviði mennta- og lýðheilsuvísinda í íslensku vísindaumhverfi státa af jafngóðum árangri í styrkjaumsóknum og rannsóknahópurinn á Laugarvatni og er það til marks um það hversu öflugur hópurinn er.

Styrkir Rannís og fjármunir tengdir þeim hafa á undanförnum árum verið notaðir til auka þekkingu á heilsufari, velferð og lifnaðarháttum fólks, ekki síst barna og ungmenna. Þessi þekking hefur svo lagt grunninn að aðgerðum og forvörum mennta- og heilbrigðisyfirvalda í landinu. Fjölmargir meistara- og doktorsnemar í íþrótta- og heilsufræðum hafa aukinheldur lokið gráðum sínum í gegnum þessi rannsóknaverkefni. Úthlutun Rannís á verkefnisstyrknum á dögunum undirstrikar enn frekar að vísindamenn íþrótta- og heilsufræðinnar á Laugarvatni eru í forystu á Íslandi í rannsóknum á hreyfingu og heilsu sem og íþróttarannsóknum.

Fyrri greinÆrslafullur farsi á sviðinu í Hveragerði
Næsta greinVantaði hollari valkost þegar kom að skyndibita