2,9 milljónir í Markaðsstofuna

Bæjarráð Árborgar hefur samþykkt að framlengja samning við Markaðsstofu Suðurlands um eitt ár frá næstu áramótum en alls mun sveitarfélagið greiða 2,9 milljónir króna til stofunnar árið 2015.

„Markaðsstofan sinnir tilteknum verkefnum samkvæmt samningi, m.a. vinnur hún að markaðsstarfi fyrir svæðið og hefur áherslu á að auka atvinnustarfsemi og gjaldeyristekjur á Suðurlandi,“ segir Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Sveitarfélagsins Árborgar.

„Hún gefur út kynningarefni fyrir ferðamenn og heldur úti heimasíðu auk þess að vinna með upplýsingamiðstöðvunum. Fjármagnið skilar sér því í kynningu og auknum ferðamannastraumi,“ segir Ásta.