28 milljónir til 66 verkefna

Tilkynnt hefur verið um úthlutun styrkja úr Uppbyggingarsjóði Suðurlands til styrkja til menningar- og nýsköpunarverkefna á Suðurlandi, en úthlutað er úr sjóðnum tvisvar á ári.

Sjóðurinn er í umsjá Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga. Styrkur var veittur til 66 verkefna, en tvöfalt fleiri sótt um. Heildarupphæð styrkveitinga að þessu sinni er rúmlega 28 milljónir króna. Var úthlutað 13 milljónum króna til 42 menningarverkefna og 15 milljónum króna til 24 nýsköpunarverkefna.

Mörg kunnugleg nöfn eru á úthlutunarlistanum líkt og áður. Hæsta styrkinn að þessu sinni hlaut Emil Morávek í verkefnið Hollywood á Hornafirði, alls 800 þúsund krónur. Þá fengu bæði Kammertónleikar á Klaustri og Sumartónleikar í Skálholti styrk eins og fyrr, og nú 700 þúsund krónur.

Hæstu styrkirnir til nýsköpunarverkefna komu að þessu sinni í hlut Christinu Stadler í Landbúnaðarháskóla Íslands í Ölfusi, sem kannar áhrif ljósstyrks á vöxt, uppskeru og gæði gróðurhúsajarðarberja að vetri til, og er það önnur tilraun. Hljóðar sá styrkur upp á 1,5 milljónir króna. Þórhallur Ægir Þorgilsson hlaut styrk í verkefnið Ægisíðuhellar, frumhönnun og fýsileikakönnun, og var það styrkt um 1,3 milljónir.

Meðal annarra verekfna má nefna 800 þúsund króna styrk í nýsköpunarverkefni tengt kartöfluflögum, og arðsemismat hleðslustöðva fyrir rafbíla á Suðurlandi, sem fékk 300 þúsund krónur.

Fyrri greinBiðlar til fyrirtækja vegna tækjaskorts
Næsta greinGuðmundur Geir talinn af