210 milljóna garður í útboð í febrúar

Íbúum Mýrdalshrepps hafa verið kynntar hugmyndir um nýja aðferð við sjóvörn til þess að verja ströndina fyrir framan Vík í Mýrdal.

Þessi aðferð felst í því að settur verður 300 metra öflugur garður þvert út í sjóinn sem myndi virka sem nokkurs konar sandgildra. Kostnaður við garðinn yrði líklega um 210 milljónir króna og er þess vænst að hann fari í útboð í febrúar næstkomandi. Hlutur sveitarfélagsins í kostnaðinum yrði væntanlega á milli 20 og 30 milljónir króna.

Að sögn Ásgeirs Magnússonar sveitarstjóra ríkir nokkuð almenn ánægja með þessa hugmynd en íbúafundur var haldinn fyrir skömmu um málið. ,,Ég verð ekki var við annað en að mjög mikil sátt ríki um þessa aðferð enda ætti hún að geta verið góð lausn á þessum vandamál. Við sjáum að ýmsar aðrar þjóðir hafa beitt svona sandgildrum með góðum árangri,“ sagði Ásgeir en sveitarstjórnin hefur lengst af viljað fara aðra leið en Siglingamálstofnun sem vildi setja garð ofan á fjöruna.

Fyrri greinEinstök samvinna foreldra og bæjarins
Næsta greinGunnlaugur ráðinn útibússtjóri