20 milljónum varið í öryggismál í Reynisfjöru

Ráðherra ferðamála hefur falið Ferðamálastofu að ganga til samninga við Vegagerðina um þróun á ölduspákerfi vegna Reynisfjöru og Kirkjufjöru.

Þetta var kynnt á blaðamannafundi í atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu í morgun.

Tilgangurinn er að hægt verði að spá fyrir um hættulegar aðstæður, vara við þeim með sýnilegum hætti og mögulega grípa til aukinnar gæslu.

Til þess að þetta sé mögulegt þarf að þróa spákerfi, framkvæma dýptarmælingar og setja upp ýmiss konar búnað. Þess er vænst að hægt verði að taka kerfið í notkun síðar á þessu ári.

Fjármögnun verkefnisins er af fé sem sett var til hliðar af fjárveitingum Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða í þágu öryggismála og er gert ráð fyrir að kostnaðurinn verði um það bil 20 milljónir króna.