192 milljónir fyrir Björgunarmiðstöðina

Kaupverð Björgunarmiðstöðvar Árborgar er 192 milljónir króna en bæjarráð Árborgar samþykkti að ganga frá kaupunum á síðasta fundi sínum.

Á fundinum var samþykkt að ganga frá bæði kaupsamningi og lánssamningi við Íslandsbanka vegna kaupanna. Það er þó gert með þeim fyrirvara að leigusamningar verði tryggir og að ákvæði þess efnis verði bætt inn í kaupsamninginn.

Á fulltrúaráðsfundi Brunavarna Árnessýslu í júlí var samþykkt að vinna að leigusamningi við sveitarfélagið á grundvelli fyrri samnings BÁ við Björgunarmiðstöð Árborgar. Á fundinum kom fram að eftir væri að ganga frá samningi milli þeirra aðila sem ætluðu að vera í húsnæðinu varðandi sameiginleg rekstrarmál.

Einnig kom fram að einhverjar breytingar verða á leigusvæðum þar sem Björgunarfélag Árborgar mun ekki ætla sér jafn mikið svæði og upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir.

Fyrri greinLeiðrétting
Næsta greinKertafleyting á Selfossi