190 ferðamönnum komið til hjálpar

Bíll frá Björgunarfélagi Hornafjarðar á brúnni yfir Jökulsá á Breiðamerkursandi. Ljósmynd/Landsbjörg

Vonskuveður hefur verið í Öræfum í dag, með hvössum snjóbyl og slæmri færð. Af þeim sökum fóru að berast tilkynningar um hádegisbilið, um ökumenn í vandræðum á föstum bílum.

Opna þurfti fjöldarhjálparmiðstöð á vegum Rauða krossins í Hofgarði, þar sem fólk gat leitað skjóls. Nú í kvöld höfðu viðbragðsaðilar aðstoðað um 190 manns auk þess sem um 50 ökutæki sitja nú föst á svæðinu. Unnið er að því að losa ökutækin.

Auk lögreglu, Rauða krossins og Vegagerðar, komu Björgunarsveitin Kári í Öræfum, Björgunarfélag Hornafjarðar og Björgunarsveitin Kyndill á Kirkjubæjarklaustri að verkefninu.

Suðurlandsvegur er lokaður frá Kirkjubæjarklaustri að Jökulsárlóni og verður ekki opnaður fyrr en á morgun.

Fyrri greinSelfoss sótti góð stig í Hólminn
Næsta greinVel heppnað klifurnámskeið á Kirkjubæjarklaustri