180 ára afmæli Búrfellskirkju fagnað í blíðskaparveðri

Lísa, Kristín Þórunn og Fjóla fyrir utan kirkjuna að athöfn lokinni. Ljósmynd/GOGG

Í gær, sunnudag, var haldið upp á 180 ára afmæli Búrfellskirkju í Grímsnesi með hátíðarguðsþjónustu.

Sr. Kristín Þórunn Tómasdóttir, sóknarprestur, þjónaði og prédikaði, á meðan Matthías Harðarson dómorganisti leiddi safnaðarsöng. Sturla Jónsson var hringjari og Sigurður Böðvarsson meðhjálpari. Ritningarlestra fluttu Elísa Schram og Anna Ýr, og Laufey Böðvarsdóttir sagði í stuttu máli frá sögu kirkjunnar.

Sr. Kristín Þórunn prédikar. Ljósmynd/GOGG

Fjóla Steindóra Kristinsdóttir, sveitarstjóri Grímsnes- og Grafningshrepps, tók einnig til máls og færði kirkjunni veglega gjöf fyrir hönd sveitarstjórnar, garðbekk úr graníti, unninn af Steinsmiðju Akureyrar. Bekkurinn er tákn um styrk, festu og samveru, gildi sem kirkjan hefur staðið fyrir í gegnum tíðina. Með gjöfinni vill sveitastjórn styrkja kirkjuna sem stað þar sem áfram verður hægt að koma saman og njóta samverunnar og umhverfisins jafnt í sorg sem og í gleði.

Að lokinni guðsþjónustu bauð Lísa Thomsen kirkjubóndi til kaffisamsætis að Búrfelli. Velunnarar Búrfellskirkju voru hvattir til að mæta og fagna þessum merka áfanga sem tókst einstaklega vel í blíðskaparveðri.

Ljósmynd/GOGG
Fyrri greinListaveislan Efemía á Hellu
Næsta greinVeiðidagur Alviðru á sunnudaginn