170 manns á tækjamóti

Tækjamót Slysavarnafélagsins Landsbjargar fór fram um helgina í Hvanngili að Fjallabaki. Veðrið lék við þátttakendur, bjart og gott veður en afar kalt.

Fólk mætti á staðinn með tækin á föstudagskvöldið og hófst þá mikið púsluspil að koma þessum 170 aðilum í skála. Var þeim raðað í skálana í Hvanngili, Álftavatni, Skólfluklifsskála við Strút, Mosa við Markarfljótsbrúna og einhverjir gistu í skálanum við Einhyrning.

Á laugardag voru síðan tækin reynd í alls kyns aðstæðum og fólk hittist, kynntist og slípaði samvinnuna milli sveita. Svona æfing skilar sér vel inn í starf sveitanna og eru þeir sem þátt taka betur í stakk búnir til að takast á við stórar aðgerðir þar sem margar sveitir koma að.

Það setti skugga á mótið að undir lok þess slasaðist sleðamaður úr Reykjavík þannig að kalla þurfti til þyrlu Landhelgisgæslunnar. Maðurinn hafði farið fram af 10 metra snjóhengju og slasaðist nokkuð. Þyrlan flutti manninn á sjúkrahús þar sem hann gekkst undir aðgerð.

Lögreglumenn frá Hvolsvelli tóku þátt í tækjamótinu. Tveir lögreglumenn fóru á lögreglubíl á mótið og nýttist sú ferð vel sem æfing fyrir lögreglumenn í snjóakstri á fjöllum. Lögreglan á Hvolsvelli er vel í sveit sett með bílabúnað þannig að hægt er að halda uppi hálendiseftirliti allt árið, þar sem aukinn ferðamannafjöldi er á hálendinu og nauðsynlegt að löggæslan fylgi með þeirri þróun.

Á tækjamótið mættu einnig Japanar frá Toyota til að mynda Land Cruiser bifreiðar í erfiðum aðstæðum. Þrátt fyrir að þeim þættu aðstæður frekar krefjandi voru þeir hæst ánægðir með afrakstur ferðarinnar.

Fyrri greinNámskeið fyrir stjórnendur neyðaraðgerða
Næsta greinVorhugur kominn í ökumenn