17. júní hátíðarhöldin færð inn í hús í Flóahreppi

17. júní hátíðarhöld kvenfélaganna og ungmennafélaganna í Flóahreppi sem áttu að fara fram í Einbúa, hafa verið færð inn í félagsheimilið Þingborg vegna veðurútlits.

Er þetta í fyrsta sinn sem er sameiginleg hátíð í hreppnum en í tilefni af 70 ára afmæli lýðveldisins ákváðu ungmennafélögin og kvenfélögin í Flóahreppi að taka höndum saman og halda í fyrsta sinn sameiginlega 17. júní hátíð á þjóðhátíðardaginn.

Hátíðarhöldin hefjast kl 14:00 eins og áður var auglýst. Ef veður er skaplegt verður farið út í leiki svo það er um að gera að hafa með sér góð útiföt. Á hátíðinni verður boðið upp á andlitsmálningu, fjallkonan stígur á svið, farið verður í leiki og félögin bjóða upp á hátíðarkaffi.

„Við vonum svo sannarlega að sem flestir íbúar Flóahrepps og einnig brottfluttir sjái sér fært að mæta á þennan sögulega viðburð og fagna þjóðhátíðardeginum með sveitungum sínum,“ segir á heimasíðu Flóahrepps.

Fyrri greinThelma Björk kölluð inn í landsliðið
Næsta greinNafn konunnar sem leitað er að