16,7 milljónir í menningarstarf á Suðurlandi

Húsið á Eyrarbakka. Ljósmynd/Byggðasafn Árnesinga

Mennta- og menningarmálaráðherra hefur, að fenginni umsögn Safnaráðs, úthlutað styrkjum úr safnasjóði að upphæð 177,2 milljónum króna fyrir árið 2020.

Þar er er tæpum 16,7 milljónum króna úthlutað til verkefna á Suðurlandi.

Listasafn Árnesinga fékk tvo styrki vegna komandi sýninga, samtals 5,5 milljónir króna fyrir Einkasafn Skúla Gunnlaugssonar (vinnuheiti) og sýninguna Norðrið/North.

Byggðasafn Árnesinga fékk þrjá styrki, samtals 3,4 milljónir króna fyrir eflingu grunnstarfsemi safnsins, skönnun skráðra ljósmynda fyrir Sarp og væntanlega sumarsýningu ársins 2020 sem nefnist Heimskonan, Húsið og íslenski hesturinn.

Byggðasafnið í Skógum fékk einnar milljón króna styrk til forvörslu textíla og Veiðisafnið á Stokkseyri fékk 750 þúsund króna styrk til skráningar og merkingar safnmuna í geymslu ásamt endurpökkun.

Tveir öndvegisstyrkir á Suðurland
Öndvegisstyrkir eru styrkir til 2-3 ára sem viðurkennd söfn geta sótt um til stærri skilgreindra verkefna.

Byggðasafn Árnesinga á Eyrarbakka og Byggðasafnið í Skógum voru meðal þeirra sem hlutu öndvegisstyrki að þessu sinni. Byggðasafn Árnesinga fékk 2 milljón króna styrk vegna flutninga frá Hafnarbrú 3 í Búðarstíg 22 og Byggðasafnið í Skógum fékk 4 milljón króna styrk til skráningar og varðveislu á safnkosti í geymslum safnsins.

Fyrri greinHeiða Ösp ráðin deildarstjóri félagsþjónustu
Næsta grein„Lífræn músik með hlýjan analog hljóðheim“