160 milljónir teknar frá vegna verksins

Vegagerðin hefur ákveðið að setja 160 milljónir króna í að leggja bundið slitlag á Landveg frá Galtalækjarskógi að Dómadalsleið. Um er að ræða u.þ.b. 7 km kafla og verður verkið eitt stærsta verkefni Vegagerðarinnar á Suðurlandi á næsta ári.

Að sögn Svans G. Bjarnasonar, umdæmisstjóra Vegagerðarinnar á Suðurlandi, er gert ráð fyrir að unnt verði að leggja bundið slitlag á um 6 til 7 km. kafla á næsta ári en það er ríflega helmingur leiðarinnar.

Að sögn Svans verður veturinn notaður til að framkvæma mælingar og undirbúa útboð en gert er ráð fyrir að bjóða verkið út í vetur og hefja framkvæmdir næsta vor.

Þess má geta að bæði Ásahreppur og Rangárþing ytra hafa ályktað um lagningu vegarins nýlega og sagði Eydís Þ. Indriðadóttir, oddviti Ásahrepps, í samtali við Sunnlenska að nauðsynlegt væri að ráðast í bætur á veginum sem væri mjög fjölfarinn og því mikilvægur fyrir alla starfsemi á svæðinu.