150 manns leita á Eyjafjallajökli

Um 150 manns eru farnir til leitar að þýska ferðamanninum sem leitað er á Eyjafjallajökli.

„Þetta eru náttúrlega erfiðar aðstæður alltaf á jökli, þannig að við erum að kalla til vant jöklafólk og fjallafólk og okkar vanasta vélsleðafólk,” segir Ólöf Snæhólm Baldursdóttir, upplýsingafulltrúi Slysavarnafélagsins Landsbjargar í frétt á Vísi. Leitarmenn koma af höfuðborgarsvæðinu og af Suðurlandi.

Maðurinn sem leitað er að var á ferð með tveimur félögum sínum í gær og hugðust þeir ganga frá Baldvinsskála á Fimmvörðuhálsi að gígnum í Eyjafjallajökli. Varð hann viðskila við þá og hefur ekki skilað sér til baka. Mennirnir þrír eru allir þaulvanir fjallaferðamenn.