1,5 milljón í undirstöður fyrir gjafaverk

Bæjarráð Árborgar samþykkti á síðasta fundi sínum að taka við listaverkagjöf frá Texas og verja 1,5 milljón króna til að gera undirstöður fyrir verkið á næsta ári.

Um er að ræða útilistaverk eftir Georg Schroeder og er verkið gjöf Schroeder til sveitarfélagsins. Verkið verður sett upp á milli Eyrarbakka og Stokkseyrar, nálægt sjóvarnargarðinum milli Hraunsár og Gamla-Hrauns. Árborg mun verja 1,5 milljón króna í að gera undirstöðu fyrir verkið árið 2012.

Tillagan var samþykkt í bæjarráði af tveimur fulltrúum D-listans en Eggert Valur Guðmundsson, fulltrúi S-lista, sat hjá. Eggert og Helgi S. Haraldsson, áheyrnarfulltrúi B-lista, lögðu fram bókanir og sögði að á tímum niðurskurðar og aðhalds í fjármálum orki það tvímælis að þiggja að gjöf listaverk sem fylgir sú kvöð að þurfa að setja það upp með miklum tilkostnaði, sem mun hlaupa á milljónum.

Eggert bætti við að eðlilegra væri að nýta þessa fjármuni til stuðnings við listamenn í Árborg. Ákvörðunin væri ekki dæmi um rétta forgangsröðum um meðhöndlun opinbers fjár.

Fyrri greinEkið á hross í Landeyjunum
Næsta greinAthugið lausamuni og hreinsið frá niðurföllum