15 ára piltur villtist á Heklu

Björgunarsveitir frá Hvolsvelli og Hellu voru kallaðar út í kvöld vegna erlends ferðamanns sem var villtur á Heklu. Einnig var hópur frá hálendisvakt björgunarsveita sem staddur var í Landmannalaugur fenginn til aðstoðar.

Þarna hafði 15 ára piltur orðið viðskila við fjölskyldu sína á göngu í fjallinu fyrr í dag.

Pilturinn hringdi í Neyðarlínu og náði að segja að hann væri staddur á eldfjalli áður en sambandið rofnaði. Stuttu síðar náði hann svo símasambandi við föður sinn sem beið hans í bíl þeirra á planinu við rætur Heklu. Faðirinn kallaði svo eftir aðstoð.

Ekki gekk að koma svokölluðum RescueMe boðum til piltsins en talið var að sími hans væri straumlaus. Sé RescueMe boðum svarað berast nákvæmar upplýsingar um staðsetningu símans til þeirra sem boðin senda.

UPPFÆRT: Pilturinn fannst um klukkan 23 í kvöld, heill á húfi. Hann var tekinn um borð í þyrlu Landhelgisgæslunnar sem flutti hann á Hellu þar sem fjölskylda piltsins beið.

Um 70 björgunarsveitarmenn úr Rangárvallasýslu og Árnessýslu tóku þátt í leitinni.

Fyrri greinMikil ánægja með menningarhúsið
Næsta greinFátt um færi hjá Selfyssingum