100 ár frá gosi í Kötlu

Kötlugosið 1918.

Í dag, 12. október, eru 100 ár frá því að gos hófst í Kötlu. Af þeim 32 eldstöðvum sem teljast virkar á Íslandi er Katla mögulega ein sú hættulegasta.

Katla er fjórða virkasta eldstöðvakerfi landsins og hefur gosið a.m.k. 21 sinnum á síðustu 1100 árum. Frá landnámi og til ársins 1918 var meðallengd goshléa um 50 ár og því hefur Katla aldeilis látið bíða eftir sér.

Þéttriðið mælanet vaktar Kötlu
Þar sem Katla er ein virkasta og hættulegasta eldstöð landsins, vakta mælar með ólíka eiginleika eldstöðina. Um tíu jarðskjálftamælar í nágrenni eldfjallsins senda gögn í rauntíma og sjálfvirk úrvinnsla reiknar stærð og staðsetningu skjálfta. Drunumælar, vatnamælar og gasmælar senda einnig gögn í rauntíma eða með nokkurra mínútna fresti.

Hvenær kemur Katla?
Íbúar í Vík tala að jafnaði ekki um að Katla „gjósi“ heldur að hún „komi“ líkt og óboðinn gestur. Ómögulegt er að spá í aðdraganda næsta goss en líklegast er að aukinnar jarðskjálftavirkni verði vart og að breytingar mælist í aflögun, gasi og/eða jökulám Mýrdalsjökuls áður en kvika nær yfirborði. Einnig er fylgst vel með jarðskjálftaóróa og viðvörun er gefin ef órói vex yfir ákveðin þröskuld á skjálftastöðvum og þá er athugað hvort merki séu um eldgosaóróa.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í ítarlegri og fróðlegri grein á vef Veðurstofunnar. Greinina má lesa hér.

Fyrri greinGestirnir gerðu áhlaup undir lokin
Næsta greinGagnrýna harðlega lokun VÍS á landsbyggðinni