100 ár frá fyrstu bílferðinni austur fyrir fjall

Landsmót Fornbílaklúbbsins fer fram í bílabænum Selfossi um helgina en mótið verður sett í kvöld. Bílarnir fara í einni halarófu frá Reykjavík klukkan 19 og munu minnast í leiðinni þess að um þessar mundir eru 100 ár frá fyrstu bílferðinni um veginn austur fyrir fjall frá Reykjavík til Selfoss.

Þetta er tíunda fornbílalandsmótið sem haldið er á Selfossi. Helstu dagskrárliðir verða á sínum stað, þar á meðal hópakstur um Selfoss sem endar með mótssetningu á Gesthúsasvæðinu. Allir aldurshópar ættu að finna eitthvað sem hentar þeim um þessa helgi, en áherslan er lögð á að hafa hana fjölskylduvæna eins og venjulega, enda hafa félagar verið taldir til fyrirmyndargesta á Selfossi. Mótinu lýkur á sunnudag.

Eiginleg bílaöld á Íslandi hefst með komu Ford T módel sem kom hingað nýr síðla júní mánaðar 1913. Stuttu seinna er fyrsta langferð Fordsins sem var til Keflavíkur og síðan austur fyrir fjall um Hellisheiði. Nokkrum dögum eftir komu bílsins er honum ekið alla leið austur að Varmalæk í Rangárvallasýslu en svo langt austur hafði engin bifreið farið fyrr.

Fordinn er fjórða bifreiðin sem kemur til landsins en Thomsenbíllinn er fyrstur síðan kemur Grundarbíllinn til Eyjarfjarðar síðan líða 9 ár þá flytja Bookless bræður inn þriðja bíllinn sem var kenndur við þá (Bookless bíllinn), síðar á árinu 1913 kom annar Ford T til landsins og áður en árið var liðið kom fyrsti Overlandbíllinn til landsins og má því segja að með komu fyrsta Fordsins 1913 hafi bifreiðaöld á Íslandi hafist. Þessar heimildir era ð finna í bók sem heitir Brotin drif og bílamenn.

Í ritinu Austantórum er síðan birt frásögn af bílferð sem farin var miðvikudaginn 23. júlí 1913 úr Reykjavík, austur yfir Hellisheiði. Varð það ein hinna fyrstu bílferða austur fyrir fjall. Jón Sigmundsson frá Ameríku var bílstjóri og með honum þrír farþegar sem áttu leið að Kaldaðarnesi og Stokkseyri. Ferðin úr Reykjavík austur að Kambabrún tók hátt á sjöttu klukkustund, enda vegurinn illur yfirferðar. Ekið var að Kotströnd þar sem farþegar stigu úr bílnum og voru ferjaðir yfir ána.

Samið var við bílstjórann að hann kæmi að Ölfusárbrú föstudaginn 25. júlí til að sækja farþegana og aka þeim til baka. Nokkur bið varð á að farþeganna yrði vitjað en að morgni laugardagsins 26. júlí birtist bíllinn, eftir að hafa tekið á sig krók austur að Þjórsárbrú. Ferðin til Reykjavíkur sóttist seint, því bensínið kláraðist af bílnum og þurfti að fá mann til að koma ríðandi úr Reykjavík með bensínbrúsa til áfyllingar.

Fyrri greinMaðurinn lagðist til sunds í Reynisfjöru
Næsta grein„Var stundum einum of mikið hérna“