10-12% meiri umferð en á sama degi í fyrra (og allt stopp við Selfoss)

Samkvæmt umferðarteljara á Hringvegi við Geitháls austan Elliðavatns hafði umferð í dag út úr Höfuðborginni aukist um rétt rúm 13% frá miðnætti til kl. 11:00, miðað við sama tímabil á föstudeginum fyrir verslunarmannahelgina á síðasta ári.

Eins og venjulega á föstudegi um Verslunarmannahelgi, sem og flesta aðra föstudaga í sumar er mikill flöskuháls við Ölfusárbrú og er bílaröð nokkra kílómetra út fyrir Selfoss. Klókir ökumenn hafa farið Þrengsli og Eyrarbakkaveg til að forðast þennan hnút.

Umferðardeild Vegagerðarinnar áætlar að umferðin austur fyrir fjall geti orðið um 10 – 12% meiri nú í dag en hún var á sama degi á síðasta ári á talningarstaðnum við Geitháls.

Skipulagðar samkomur eru á Úlfljótsvatni og Flúðum, auk þess sem mikil umferð er í Landeyjarhöfn. Tíðindamenn sunnlenska.is í uppsveitum Árnessýslu segja að tjaldstæði séu víðast hvar orðin „smekkfull“.

Fyrri greinEngin merki um aflögun eða óróa
Næsta greinBrettasvæði sett upp í Hveragerði