1.118 umsóknir í 34 lóðir í Þorlákshöfn

Þorlákshöfn. Ljósmynd/Baldvin Agnar Hrafnsson

Í dag lauk umsóknarfresti um 34 lóðir sem auglýstar voru í nýju hverfi í Þorlákshöfn. Alls bárust 1.118 umsóknir um lóðirnar og þarf því að draga á milli áhugasamra.

Hafnarfréttir greina frá þessu og hafa eftir Elliða Vignissyni, bæjarstjóra, að hann hafi sannarlega átt von á miklum áhuga en þetta fari langt fram úr þeim væntingum sem hann hafði.

„Við höfum sannarlega fundið fyrir vaxandi áhuga á samfélaginu hér og auðvitað sagði það ákveðna sögu þegar upp kom sú staða fyrir fáeinum dögum að ekki ein einasta fasteign var til sölu í sveitarfélaginu. Á sama tími áttum við engar lóðir og það sennilega án fordæma að jafn stórt bæjarfélag og okkar sé uppselt. Áhuginn á lóðunum var því viðbúin en ekki svona mikill,“ segir Elliði.

Lóðirnar sem um ræðir eru í svokölluðu Vesturbergi sem verið er að byrja á við vesturenda Selvogsbrautar. Í fyrsta áfanga eru 4 smáfjölbýli, 18 raðhús og 13 einbýli.

Fyrri greinEkkert gengur hjá Hamri
Næsta greinHorfurnar góðar þó nú kreppi að