Örvar Rafn Hlíðdal, íþróttakennari við Flóaskóla og útinámsverkefni Álfheima og Vallaskóla á Selfossi eru meðal þeirra sem tilnefnd eru til Íslensku menntaverðlaunanna í ár.
Íslensku menntaverðlaunin eru veitt í fimm flokkum; fyrir framúrskarandi skóla- eða menntaumbótastarf, kennslu, þróunarverkefni og iðn- og verkmenntun, auk sérstakra hvatningarverðlauna.
Fimm kennarar eru tilnefndir fyrir framúrskarandi kennslu og meðal þeirrra er Örvar Rafn Hlíðdal, sem tilnefndur er fyrir fyrir framúrskarandi íþróttakennslu og árangur í starfi. Örvar hefur meðal annars gert frábæra hluti í kringum Skólahreysti, þar sem Flóaskóli hefur náð frábærum árangri síðustu ár.
Þrjú þróunarverkefni hljóta tilnefningu og meðal þeirra er Gullin í grenndinni – samvinna leik og grunnskóla um nám úti í náttúrunni. Það er útinámsverkefni tveggja skóla á Selfossi, leikskólans Álfheima og grunnskólans Vallaskóla. Starfið gengur út á það að nemendur skólanna upplifi náttúruna og nærsamfélagið á fróðlegan og skemmtilegan hátt og að skólastigin tengist í gegnum verkefnið.
Íslensku menntaverðlaunin verða afhent á Bessastöðum í nóvemberbyrjun.

