Þyrlan sótti veikan mann við Markarfljót

Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-LÍF, sótti veikan göngumann í morgun en hann var staddur við Markarfljót, suðaustur af Hagafelli.

Talið er að maðurinn, sem er franskur, hafi fengið nýrnasteinakast. Hann var einn síns liðs á göngu inni á hálendinu en bar á sér staðsetningartæki og sendi neyðarkall með því.

Kallið barst móttökustöð í Bandaríkjunum sem hafði samband við Landhelgisgæsluna og gaf upp GPS hnit mannsins.

TF-LÍF fór þegar af stað sem og björgunarsveitarmenn í hálendisgæslu Landsbjargar. Þeir náðu til mannsins á svipuðum tíma og þyrlan lenti og aðstoðuðu við aðhlynningu og flutning.

Fyrri greinHestamenn verjast spellvirkjum
Næsta greinSlegið af kappi á Bakkanum