Þýðingarfyrirtæki stofnsett á Selfossi

Þýðingarfyrirtækið Brandugla slf. hefur tekið til starfa á Selfossi. Aðaleigandi og þýðandi er Ingibjörg Elsa Björnsdóttir.

Þýðingar eru ört vaxandi atvinnugrein hér á landi og þess eðlis að hægt er að starfa við þær óháð staðsetningu. Að sögn Ingibjargar er tilkoma fyrirtækis á borð við Branduglu til þess fallin að auka fjölbreytni í atvinnulífi á landsbyggðinni og fjölga störfum sem henta vel menntuðu og hæfu fólki.

Ingibjörg er með BA próf í rússnesku og sagnfræði, B.Sc. gráðu í jarðfræði, M.Sc. gráðu í umhverfisefnafræði og MA gráðu í þýðingafræði. Hún hefur um árabil starfað sjálfstætt við þýðingar, en taldi nú tímabært að stofna um starfsemina fyrirtæki.

„Verkefnum hefur fjölgað jafnt og þétt síðustu misseri og tímabært að formgera reksturinn betur með stofnun fyrirtækis og auðvelda um leið miðlun verkefna til fleiri aðila,“ segir Ingibjörg.

Fyrirtækið annast að mestu þýðingar fyrir erlend fyrirtæki og þýðingarstofur, en tekur einnig að sér verkefni hér innanlands. Þýtt er yfir á íslensku af ýmsum tungumálum og svo af íslensku yfir á ensku.

Meðal fyrri viðfangsefna eru margvíslegir tækni- og vísindatextar, upplýsingarit fyrir ferðafólk, arkítektúr og verkfræðirit, auk margvíslegra annarra skrifa.

Nafn fyrirtækisins, Brandugla slf. vísar til Branduglunnar sem er sú uglutegund er verpir oftast á Íslandi. Á latínu heitir Brandugla Asio flammeus og vísar Brandur því til eldibrands, það er uglan er sem logi á litinn í ljósaskiptunum þegar hún fer á veiðar.

Fyrri greinHefðbundinn páskaakstur Strætó
Næsta greinBuster þefaði uppi kannabis