Þúsundir lunda við Dyrhólaey

Þúsundir lunda halda sig nú í bjarginu og brekkunum við Dyrhólaey. Mjög óvenjulegt er að sjá svo mikið af lunda þar svo seint að sumri.

Hegðun lundans veldur mörgum heilabrotum um þessar mundir. Lundaveiðimenn í Vestmannaeyjum furða sig á fjölda ungra lunda við Eyjar nú, í ljósi fullyrðinga fræðimanna um litla sem enga nýliðun stofnsins undanfarin ár. Þetta kom fram í seinni fréttum sjónvarps í gær. Og í dag eru svo margir lundar á lofti yfir Reynisfjöru og Dyrhólaey að engu er líkara en ský dragi fyrir sólu, að sögn Barkar Hrólfssonar leiðsögumanns.

„Það er þannig umhorfs að hér eru bara lundar í þúsundatali og klettarnir hérna í Reynisfjöru og brekkurnar eru bara þakin af lunda. Það eru heilu hóparnir fljúgandi hérna út í sjó og fram og aftur. Þetta er bara eins og um mitt sumar og mjög óvenjulegt að sjá svona mikið af lunda hérna núna,“ segir Börkur.

Börkur segir að yfirleitt sé lundinn farinn um miðjan ágúst. Nú virðist fuglinn hafa séð sig um hönd. „Hann var eiginlega farinn, en svo hefur hann bara komið aftur þegar ætið kom aftur. Loksins kom nóg af sandsíli, ég hef heyrt frá heimamönnum að hér sé yfrið nóg af sandsíli, fiskur sem hér veiðist er alveg pakkaður af sandsíli. Og lundinn bara tímir ekki að fara loksins þegar hann fær nóg að éta.“

RÚV greindi frá þessu

Fyrri greinÓbreytt Útsvarslið í Árborg
Næsta greinHelga sýnir í safnahorninu