Þurrkuðu kannabis í sumarbústað

Lögreglan á Selfossi handtók í gærkvöldi tvo menn vegna gruns um kannabisræktun í sumarbústað í Grímsnesi.

Lögreglu bárust síðdegis á miðvikudag upplýsingar um að frá sumarbústað í Grímsnesi leggði megnan gróðurilm. Lögreglumenn fóru að húsinu og leyndi sér ekki að lykt af kannabis barst út frá því. Húsið reyndist mannlaust en þegar inn var komið blasti við þakið stofugólf af afklipptum kannabisplöntum sem dreift hafði verið til þerris. Hald var lagt á plönturnar og búnað sem notaður var við þurrkunina.

Grunur lögreglu barst fljótlega að mönnunum tveim sem áttu dvalarstað á höfuðborgarsvæðinu. Sérsveit ríkislögreglustjóra var fengin til að hafa upp á mönnunum og voru þeir handteknir í gærkvöldi. Við yfirheyrslur vísaði annar mannanna á stað í Smiðjuhverfi í Kópavogi þar sem ræktunin fór fram. Þar var lagt hald á plöntur og búnað. Tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu sá um tæknirannsóknir á ræktunarstaðnum.

Annar maðurinn viðurkenndi að hafa átt einn aðild að málinu en hinn hefði einungis lagt til sumarbústaðinn en hann muni ekki hafa vitað um að kannabisplönturnar hefðu verið fluttar þangað. Maðurinn viðurkenndi einnig sölu á efnum.

Rannsóknarlögreglumenn á Selfossi sögðu í samtali við sunnlenska.is að málið væri óvenjulegt að því leyti að efnin væru ræktuð á einum stað en svo flutt annað til þurrkunar. Yfirleitt tækju menn ekki slíka áhættu í þessum málum.

Nýtilegur hluti plantnanna vó tæp 30 og er rannsókn málsins að mestu lokið.

Fyrri greinSöngtónleikar Kristrúnar á Stokkalæk
Næsta greinEinar Bárðar: Þetta er bara lögreglumál