„Þurfti að hreinsa ákveðna hluti út“

Elfa Dögg Þórðardóttir, forseti bæjarstjórnar í Árborg, skrifaði félögum sínum í meirihlutanum bréf fyrir nokkrum dögum þar sem hún tilkynnti þeim, að hún ætti að óbreyttu ekki samleið með þeim í meirihlutasamstarfi í bænum.

Elfa Dögg er bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sem hefur fimm bæjarfulltrúa í Árborg og þar með hreinan meirihluta. Samfylkingin á tvo fulltrúa, Vinstri græn einn og Framsóknarflokkurinn einn.

Tveir sólarhringar liðu frá því að Elfa Dögg sendi bréfið þangað til hún fékk viðbrögð frá félögum sínum. Á meðan fóru fram óformlegar en viðræður á milli hennar og fulltrúa minnihlutans um myndun nýs meirihluta.

Elfa Dögg staðfesti í samtali við Eyjuna í gærkvöldi að hún hefði skrifað bréfið til flokkssystkina sinna í Sjálfstæðisflokknum.

„Þetta er prívatmál,“ sagði hún. „Það hefur verið stirt á milli fólks og það þurfti að hreinsa ákveðna hluti út.“

Í frétt Eyjunnar er það fullyrt að bréfaskrifin séu tilkomin vegna samskiptaörðugleika Elfu og Eyþórs Arnalds, oddvita D-listans.

Á síðasta bæjarstjórnarfundi lagði S-listinn til að undirbúningsvinnu vegna mögulegrar virkjunar í Ölfusá yrði hætt. Meirihlutinn felldi tillöguna en Elfa Dögg sat hjá við afgreiðslu málsins. Aðspurð sagði Elfa Dögg virkjunarmálið ekki hafa haft áhrif á þau átök sem nú eru innan meirihluta Sjálfstæðisflokksins.

„Það hefur lengi verið ljóst að ég er á móti virkjuninni,“ sagði hún og ítrekaði að tilefni bréfaskrifa hennar væru eingöngu persónulegir samskiptaerfiðleikar.

UPPFÆRT KL. 13:30:

Elfa Dögg segist ekki hafa rætt við minnihlutann um myndun nýs meirihluta. „Ég hef ekki rætt við minnihlutann um meirihlutasamstarf og þessu máli er lokið,“ sagði Elfa Dögg í samtali við sunnlenska.is. „Loftið hefur verið hreinsað og meirihlutinn stendur styrkum fótum.“

Fyrri greinDæmd fyrir veiði í eigin landi
Næsta greinFjölbreytt dagskrá á Eyrarbakka