Þurfa að setja upp 80 kjörklefa

Fjölga þarf kjörklefum úr 12 í 80 í Árborg þegar kosið verður til stjórnlagaþings þann 27. nóvember næstkomandi.

Þetta er nauðsynlegt þar sem ætlað er að kjósendur þurfi allt upp í tíu mínútur til að fylla út kjörseðil sinn sem verður talsvert öðruvísi að þessu sinni. Alls eru fram­bjóð­endur til þingsins 523 og landið eitt kjör­dæmi. Kjósendur mega kjósa allt að 25 fram­bjóð­endur en ekki eru nein lágmörk, og svo má vissu­lega skila auðum seðli.

„Við rennum auðvit­að nokkuð blint í sjóinn en teljum okkur ágæt­lega undir þetta búin,“ segir Ingimundur Sigurmundsson for­maður kjör­stjórnar í Árborg. Hann segir ekki þurfa meiri mannskap til að sjá um kosn­ing­arnar, en í stað lokaðs klefa verður kjós­end­­um gert kleift að setjast við borð með skil­rúmi og fylla út seðilinn þar. „Það myndi vissu­lega flýta fyrir ef kjósendur koma vel undir­búnir og með númer hvers frambjóðanda með sér,“ segir Ingi­mundur.

Að sögn Ingimundar eru um 30 starfsmenn sem starfa í kjördeildum í Árborg, oft sama fólkið. „Það má segja að við séum orðin nokkuð slípuð í þessu,“ segir hann að lokum.

Fyrri greinHamar spilar í Jako
Næsta greinFjölmenni á Þórðarmótinu