Þrjú innbrot og þakullarstuldur

Aðfaranótt miðvikudags var gerð tilraun til innbrots í félagsmiðstöðina Pakkhúsið á Selfossi og Skíðaskálann í Hveradölum.

Engu var stolið í Pakkhúsinu en skemmdir unnar á glugga eftir að hann var spenntur upp með stórum tjaldhæl. Innbrotið átti sér stað um kl. 3 um nóttina.

Sömu nótt var gerð tilraun innbrots í Skíðaskálann í Hveradölum. Tvær rúður við hlið útihurðar voru brotnar og sá sem þarna var að verki náði að teygja sig í læsinguna og opna dyrnar. Það virtist ekki duga honum því hann hafði losað um þolinmóðana í hurðarlömunum, hefur væntanlega ætlað að losa hurðina af hjörum en horfið frá því. Ekki var að sjá að farið hafi verið inn í húsið.

Um klukkan 22:20 síðastliðinn laugardag var brotist inn í Álnavörubúðina í Hveragerði en engu var stolið. Öryggisvörður fékk boð um innbrotið en þegar hann komst inn í húsið var sá sem braust inn í verslunina á bak og burt.

Þá var bretti með 24 pökkum af sérskorinni þakull stolið úr geymslu SG húsa á Selfossi á tímabilinu frá 8. til 11. desember síðastliðinn.

Lögreglan á Selfossi biður alla þá sem veitt geta upplýsingar um þessi mál að hafa samband í síma 480 1010.

Fyrri greinFalsaður seðill í umferð
Næsta greinUngt barn á heimili þar sem fíkniefni fundust