Þrjár hátíðir á Suðurlandi um helgina

Sléttusöngur á Selfossi. Ljósmynd/Anna Rúnarsdóttir

Þrjár bæjar- eða sveitahátíðir eru um helgina á Suðurlandi og fjölmargir viðburðir þeim tengdir fyrir alla fjölskylduna.

Á miðvikudag hófust bæjarhátíðirnar Hafnardagar í Þorlákshöfn og Sumar á Selfossi (á Selfossi). Á laugardaginn er svo hátíðin Grímsævintýri á Borg í Grímsnesi.

Á Hafnardögum getur fjölskyldan öll fundið eitthvað við sitt hæfi en meðal helstu viðburða má nefna varðeld og brekkusöng í skrúðgarðinum á föstudagskvöld þar sem verða fjölmargar uppákomur. Á föstudagskvöld verður Lúðrasveitt partý í Versölum og á laugardagskvöld eru tónleikar með Jónasi Sig og Ritvélum framtíðarinnar í Reiðhöll Guðmundar.

Sumar á Selfossi býður upp á tónleika með Úlfi Úlfi í Sigtúnsgarði á fimmtudagskvöld og tónlistardagskrá tileinkaða Vilhjálmi Vilhjálmssyni í Sigtúnsgarðinum á föstudagskvöld. Á laugardagsmorgun er boðið til morgunverðar í miðbænum og hátíðin nær hápunkti með Sléttusöng og flugeldasýningu á laugardagskvöld ásamt svitaballi með Stuðlabandinu.

Að vanda verður þétt og skemmtileg dagskrá á Grímsævintýri á laugardag. Tombólan fræga verður á sínum stað en hún verður haldin í nítugasta sinn. Handverks- og matarmarkaður verður í íþróttahúsinu ásamt bókamarkaði. Sirkus Íslands mætir og Leikfélagið Borg skemmtir gestum svo eitthvað sé nefnt.

Fyrri greinSigurlín sýnir í Listagjánni
Næsta greinVegavinna á Hellisheiði