Þrír staðnir að hraðakstri

Lögreglan á Hvolsvelli stóð þrjá ökumenn að hraðakstri í liðinni viku. Lögreglan segir með ólíkindum að menn stundi hraðakstur eins hættuleg og færðin hefur verið.

Flest verkefni Hvolsvallarlögreglunnar í vikunni sneru að vandræðum ökumanna í ófærð og hálku.

„Vanmat ökumanna á aðstæðum, of hraður akstur miðað við aðstæður og illa búnar bifreiðar má segja að séu aðal orsök þessa og skýri vandræði ökumanna,“ segir í dagbók lögreglu.

Tvær bílveltur urðu í hálku í vikunni, á Mýrdalssandi á mánudag og önnur á þriðjudag í Ásahrauni. Í báðum tilfellum skemmdust bifreiðarnar mikið en meiðsl á fólki voru minni háttar.

Þá var ekið á kyrrstæða bifreið á Fíflholtsvegi í Landeyjum á sunnudag en bifreiðin sem ekið var á hafði verið skilin eftir sökum ófærðar, báðar bifreiðarnar skemmdust mikið við óhappið en ökumaðurinn slapp án meiðsla.

Útlit er fyrir umhleypinga í veðrinu næstu daga og má búast við áframhaldandi hálku og slæmri færð og hvetur lögreglan ökumenn til þess að huga að búnaði bifreiða sinna og fylgjast með veðurspám og færð, svo sem á vefsvæðum Veðurstofu Íslands www.vedur.is og svo á vef Vegagerðarinnar www.vegagerdin.is

Fyrri greinKærður fyrir utanvegaakstur
Næsta greinHeiðin og Þrengslin lokuð