Þrír gistu fangageymslur á Selfossi

Athugull íbúi í Þorlákshöfn sá til jeppabifreiðar á róli um íbúðahverfi í bænum um klukkan hálf þrjú í nótt. Honum fannst þetta grunsamlegt og hafði samband við lögreglu sem brást við þegar í stað.

Lögreglumenn fundu jeppabifreiðina sem í voru tveir karlar og ein kona. Fólkið var handtekið og fært í fangageymslu á Selfossi.

Ökumaðurinn var grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna og við nánari skoðun á jeppanum kom í ljós að skráningarnúmerin sem á honum var tilheyrðu annarri bifreið. Rannsókn er í gangi með hvaða hætti skráninganúmerin voru komin á þessa bifreið og jafnframt hvort fólkið hefur staðið að lögbrotum á ferð sinni í nótt.

Í Þorlákshöfn hefur enn ekki verið tilkynnt um innbrot eða þjófnaði.

Þorgrímur Óli Sigurðsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn, sagði í samtali við sunnlenska.is að lögreglan væri ánægð með að fólk fylgist vel með nágrenni sínu og láti lögreglu vita ef það verður vart við grunsamlegar mannaferðir um miðja nótt.

Fyrri greinML sigraði í Lífshlaupinu
Næsta greinMótmæla gjaldtöku við Geysi