Þriggja bíla árekstur á Suðurlandsvegi

Gærdagurinn var annasamur hjá lögreglunni á Hvolsvelli en meðal annars varð þriggja bíla árekstur á Suðurlandsvegi, skammt frá Landeyjahafnarvegi.

Ekki urðu slys á fólki í árekstrinum sem varð um klukkan hálftvö í gær.

Tólf ökumenn voru stöðvaðir fyrir að aka of hratt í umdæminu í gær og fengu þeir viðeigandi sektir fyrir brot sín. Þeir hröðustu óku á 123 km/klst hraða á hringveginum. Umdæmi Hvolsvallarlögreglunnar er víðfemt og nær frá Þjórsá austur að Gígjukvísl.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni fær hún vikulega tilkynningar um utanvegaakstur og eru nokkur mál þess eðlis í rannsókn. Lögreglan ítrekar við ökumenn að utanvega akstur er bannaður hvort sem hann er stundaður á hálendinu eða láglendinu.

Fyrri greinSkák í Skálholti
Næsta greinFjárfest fyrir 120 milljónir á Strönd