Þrennt dæmt í gæsluvarðhald eftir innbrotahrinu

Eftir hádegið í gær handtók lögreglan tvo menn, 19 og 20 ára, á Kirkjubæjarklaustri en þeir voru á bíl sem hafði verið stolið í Reykjavík nóttina áður.

Ökumaðurinn er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Í bílnum fannst mikið magn af þýfi og í framhaldi af þessari handtöku fundu lögreglumenn 19 ára stúlku sofandi í sumarbústað sem brotist hafði verið inn í skammt frá Kirkjubæjarklaustri. Einnig þar reyndist vera mikið magn af ætluðu þýfi.

Þremenningar eru grunaðir um að hafa stolið bifreiðinni í Reykjavík og lagt af stað í innbrotaleiðangur um Suðurland og á leið sinni brotist inn í á annan tug staða. Ennþá eru að berast tilkynningar um innbrot og þjófnaði á leið þeirra frá Reykjavík um Suðurlandið.

Ekki reyndist unnt að taka skýrslu af fólkinu fyrr en eftir hádegi í dag vegna ástands þess, en í framhaldi af því voru þau öll leidd fyrir dómara þar sem krafist var gæsluvarðhalds yfir þeim í tvær vikur og hefur dómari fallist á kröfu lögreglu þar um.

Lögreglan á eftir mikla vinnu við að heimfæra þýfi á brotavettvanga og enn er óljóst hvort tilkynningar hafi borist um þá alla.

Fyrri greinSöfnum birkifræi fyrir Hekluskóga
Næsta grein„Ég á ekki orð“