Þórður í Skógum hlaut Landstólpann

Síðastliðinn föstudag hlaut Þórður Tómasson, safnvörður og menningarfrömuður í Skógum undir Eyjafjöllum, Landstólpann, samfélagsviðurkenningu Byggðastofnunar.

Viðurkenningin var afhent á ársfundi Byggðastofnunar sem haldinn var í Miðgarði í Skagafirði.

Þórður Tómasson er flestum kunnur. Hann hefur byggt upp stærsta byggðasafn á Íslandi sem dregur að sér fjölda ferðamanna árlega og meiri fjölda en nokkurt annað byggðasafn.

Þórður hefur verið óþreytandi við björgun íslensks menningararfs á starfstíma sínum. Hann tekur á móti ferðamönnum á persónulegan hátt, spilar á orgel og hrífur fólk með frásögnum sínum. Hann hefur verið ötull í útgáfumálum, skrifað um þjóðhætti og um minja- og safnamál. Hann var hvatamaður að fornleifarannsóknum, t.d. á Stóru-Borg svo fátt eitt sé talið. Safnið í Skógum er einstakt á landsvísu, þar er byggðasafn, samgönguminjasafn og kirkja sem Þórður lét reisa á staðnum. Þórður er enn starfandi 92ja ára gamall, fæddur 1921.

Landstólpinn er veittur einstaklingum, fyrirtækjum, stofnunum eða sveitarfélögum sem vakið hafa jákvæða athygli á landsbyggðinni, t.d. með tilteknu verkefni eða starfsemi, umfjöllun eða öðru. Jafnt er horft til vinnu sem vakið hafa athygli á byggðamálum, landsbyggðinni í heild, eða einhverju tilteknu byggðarlagi og þannig aukið veg viðkomandi samfélags. Viðurkenningin er hvatning og hugmyndin að baki henni er að efla skapandi hugsun og bjartsýni.

Þetta var í þriðja skipti sem Byggðastofnun afhendir Landstólpann. Jón Jónsson, þjóðfræðingur og menningarfrömuður á Ströndum hlaut hann árið 2011. Síðasta ár var viðurkenningin veitt Örlygi Kristfinnssyni frumkvöðli í menningarferðaþjónustu og safnastarfi á Siglufirði.

Byggðastofnun óskaði eftir ábendingum um verðugan handhafa Landsstólpans og í ár bárust 27 tilnefningar víðsvegar að af landinu.

Heitið á viðurkenningunni, Landstólpinn, er fengið úr kvæði Jónasar Hallgrímssonar, Alþing hið nýja (1840). Jónas segir bóndann stólpa búsins og búið stólpa landsins, það sem landið treystir á. Nú er merking búsins í bændasamfélagi nítjándu aldar yfirfærð á nútímasamfélagið sem byggir á mörgum stoðum og stólpum.

Fyrri greinEkið á kyrrstæðan bíl á Þrengslavegi
Næsta greinTveir nálægt flugtakshraða