Þök og tré á flugi

Björgunarsveitin Dagrenning á Hvolsvelli var kölluð út í dag til þess að hefta fok á þakplötum á útihúsi við bæ í Landeyjum. Óveður er undir Eyjafjöllum og víðar á suðvesturhorni landsins.

Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni fara skil óveðurslægðarinnar hratt norðaustur yfir landið og lægja mun mikið og stytta upp nú síðdegis, milli klukkan fimm og sex. Í nótt og fyrramálið mun veðrið snúast í SV-storm suðvestanlands með krapaéljum og hálku ofan um 200-300 m.y.s.

Óveður er á Sandskeiði, snjóþekja og éljagangur er á Hellisheiði en hálkublettir í Þrengslum, Mosfellsheiði og við Þingvallavatn. Hálkublettir eru í uppsveitum Árnessýslu. Vegir fyrir austan Selfoss eru að mestu greiðfærir en óveður er undir Eyjafjöllum.

Ökumenn á vanbúnum bílum hafa lent í vandræðum á Hellisheiði í dag og eftir hádegi þurfi að aðstoða fólk sem sat fast í bílum sínum efst í Kömbunum. Þá mælir lögreglan ekki með að fólk fari Lyngdalsheiðina í dag, þar sé þjónusta ekki mikil og umferð lítil.

Fyrri grein37 þúsund fóru í sund
Næsta greinSvakaleg spenna í tvíframlengdum leik