Þjótandi átti lægsta boðið

Níu verktakar buðu í grjótnám og gerð varnargarða í farvegi Múlakvíslar ofan við hringveginn. Þjótandi á Hellu bauð lægst í verkið.

Tilboð Þjótanda hljóðaði upp á rúmar 224,4 milljónir króna en næst lægsta boð kom frá Hálsafelli í Reykjavík tæpar 249 milljónir króna. Áætlaður kostnaður Vegagerðarinnar við verkið var 301,5 milljónir króna en fimm verktakar voru undir áætlun. Hæsta boðið kom frá Fossvélum á Selfossi, 499 milljónir króna.

Heildarlengd varnargarðanna er tæpir 5,8 kílómetrar en efni í þá, tæpir 250 þúsund rúmmetrar, verður tekið úr grjótnámu rétt austan Dýralækja í Skaftárhreppi.

Verkinu á að vera lokið þann 1. júní á næsta ári.

Fyrri greinLandsmótsmyndir: Laugardagur
Næsta greinSigurður Ingi forsætisráðherra