Þjónustugjald á gesti í þjóðgarðinum

Nýta á heimildir til gjaldtöku af ferðamönnum sem nota aðstöðuna á Hakinu við Almannagjá á Þingvöllum.

Í Fréttablaðinu í dag segir Ólafur Örn Haraldsson, þjóðgarðsvörður, ferðaþjónustuna taka þessu vel. Sómi okkar sé í veði að hafa myndarlega aðkomu að Þingvöllum. „Sú stund er upprunnin að það sé eðlilegt að taka gjald fyrir veitta þjónustu,“ segir Ólafur Örn Haraldsson, þjóðgarðsvörður á Þingvöllum, um þá samþykkt Þingvallanefndar að nýta lagaheimildir til að taka gjald af ferðamönnum í þjóðgarðinum.

Ólafur segir eingöngu rætt um að taka gjald fyrir aðgang að aðstöðunni á Hakinu á barmi Almannagjár en ekki annars staðar í þjóðgarðinum. „Síðasta árið hefur verið mjög mikil uppbygging á Þingvöllum, meðal annars með átján salernum í tveimur húsum með öllum nýtísku búnaði. Þetta hefur kostað gríðarmikla peninga,“ segir Ólafur.

„Ég tek skýrt fram að það er ekki verið að loka þjóðgarðinum eða taka aðgangsgjald heldur er þetta eingöngu gjald fyrir veitta þjónustu,“ undirstrikar þjóðgarðsvörður, sem leggur til að gjaldið verði 200 til 300 krónur á hvern gest.

Fyrri greinHlynur á 74 höggum á HM
Næsta greinLíklegt að áframhaldandi vinnsla verði leyfð