Þjófurinn otaði kúbeini að vertinum

Skömmu fyrir miðnætti á aðfangadagskvöld var brotist inn á veitingastaðinn Kanslarann á Hellu.

Þjófavarnarkerfi er á Kanslaranum og þegar eigandi staðarins kom á vettvang mætti hann þjófnum. Hann otaði kúbeini að eigandanum og hljóp svo út í myrkrið. Þjófurinn hafði á brott með sér nokkrar flöskur af sterku áfengi.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á Hvolsvelli. Að öðru leyti voru jólin róleg hjá lögreglunni. Átta ökumenn voru stöðvaðir fyrir of hraðan akstur.

Lögreglan vaktaði vegi undir Eyjafjöllum vegna mikillar rigningar að kvöldi jóladags og fram á annan dag jóla. Skemmdir urðu á þjóðvegi 1 við Seljalandsá svo hann lokaðist um stund í gær en viðgerð þar lauk í dag.

Fyrri greinLítil umferð um jólin
Næsta greinSlaufur og slifsi á Sálinni