Þinglýsa eignarhaldi á Dyrhólaey

Sveitarstjórn Mýrdalshrepps hyggst fela sveitarstjóra í samstarfi við lögmann sveitarfélagsins og aðra landeigendur að ganga frá þinglýsingu á eignarhaldi sveitarfélagsins á Dyrhólaey.

Þetta var endanlega ákveðið á fundi sveitarstjórnar í vikunni.

Ákvörðunin var fyrst samþykkt á fundi sveitarstjórnar þann 17. febrúar sl. en var mótmælt af hálfu lögmanna eigenda Vesturhúsajarða. Héldu þeir því fram að til væru gögn sem gengu þvert á lögfræðilegt álit um að Dyrhólaey tilheyrði Austurhúsum, þær jarðir sem eiga Dyrhólaey ásamt Mýrdalshreppi.

Þess vegna var farið yfir málið á nýjan leik með tilliti til umræddra gagna en niðurstaða lögfræðinga var sú að gögnin breyttu engu um hið fyrra álit.

Því samþykkti sveitarstjórn Mýrdalshrepps á ný að ganga frá þinglýsingu á eignarhaldi sveitarfélagsins á Dyrhólaey.

Fyrri greinDauft yfir Árborgurum
Næsta greinLeitað að hlaupara á Rangárvöllum