„Þetta var eins og í ævintýri“

Um helgina fór fram brúðkaup í Húsadal í Þórsmörk þar sem sr. Helga Soffía Konráðsdóttir, prestur í Háteigskirkju, gaf saman Hjördísi Þorsteinsdóttur og Kristján Hauk Flosason.

„Þegar við fórum í gegnum það í huganum hvaða staði við gætum valið sem öðruvísi vettvang fyrir brúðkaupið okkar þá var Þórsmörk fyrsti staðurinn sem kom upp í hugann. Þetta er okkar staður, við höfum farið þarna oft og verið þarna saman,“ segir brúðguminn og bætir við að þau Hjördís séu mikið útivistarfólk.

„Þarna er ljómandi fín aðstaða og Farfuglarnir sem eru með Dalsel í Húsadal hjálpuðu mikið til þannig að það var lítið mál að koma þarna upp 100 manna brúðkaupsveislu, segir Kristján. Dagurinn var fullkominn og það hefði ekkert mátt vera öðruvísi. Athöfnin fór fram í litlum lundi í Húsadal og um leið og bróðir minn byrjaði að spila „Here comes the sun“, sem inngöngumars þá dró ský frá sólu. Þannig að þetta var eins og í ævintýri,“ segir Kristján að lokum.

Alls voru um 100 gestir viðstaddir athöfnina og eftir hana var haldin veisla í Dalseli í Húsadal þar sem m.a. var boðið upp á þriggja rétta máltíð. Eftir matinn var varðeldur þar sem veislugestir sungu og skemmtu sér fram á nótt.

Hjördís og Kristján búa í Reykjavík en eiga bæði ættir sínar að rekja á Suðurland, hún upp í Hreppa og hann í Gaulverjabæjarhreppinn.

Fyrri greinTilboð verða opnuð 26. ágúst
Næsta greinTunglfisk rak í Mýrdalnum